Lög SHÍ

Samþykktum á stofnfundi 11. júní 1999,

 

LÖG

Samtaka heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi

 

1. gr.

Heiti félagsins er Samtök heilbrigðissvæða á Íslandi

 

2. gr.

Tilgangur félagsins er að standa vörð um heilbrigðiseftirlit á Íslandi og stuðla að árangursríku, óháðu og faglegu eftirliti í samræmi við lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

 

3. gr.

Tilgangur sínum hyggst félagið ná með því að:

a: Efla samstarf heilbrigðiseftirlitssvæða

b: Stuðla að bættu vinnuumhverfi heilbrigðiseftirlits

c: Samstilla heilbrigðiseftirlitið í landinu í stefnumótun og við umræðu um setningu laga og reglugerða um hollustuhætti og mengunarvarnir

d: Taka virkan þátt í umræðu hverju sinni um hollustuhætti og mengunarvarnir og miðla upplýsingum um alla þætti í starfi heilbrigðiseftirlitssvæðanna.

e: Auka tengsl heilbrigðiseftirlitsins við Samband íslenskra sveitarfélaga með það að markmiði að styrkja óháð og faglegt heilbrigðiseftirlit.

 

4. gr.

Fulltrúar heilbrigðiseftirlitssvæðanna í félaginu eru formenn heilbrigðisnefnda og framkvæmdastjórar heilbrigðiseftirlitssvæðanna.  Varamenn skulu vera varaformenn nefndanna og staðgenglar framkvæmdastjóranna.

 

5. gr.

Félagsmenn ganga úr félaginu ef þeir láta af störfum við mengunar- og heilbrigðiseftirlit eða heilbrigðisnefnd.

Heimilt er að víkja félagsmönnum úr félaginu ef þeir vinna gegn hagsmunum félagsins.  Til að víkja manni úr félaginu þarf samþykki 75% atkvæða á almennum félagsfundi.

6. gr.

Greiðsla félagsgjalda skal fara fram fyrir 1. júní ár hvert og skal upphæð þeirra ákveðin á aðalfundi.  Félagsgjald skal standa undir kostnaði við rekstur félagsins.

 

7. gr.

Reikingsár félagsins er á milli aðalfunda.  Reikningum skal lokað eigi síðar en 2 vikum fyrir aðalfund og þeim skilað til skoðunarmanna félagsins.

 

8. gr.

Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir lok október ár hvert.  Til aðalfundar skal boðað með tryggilegum hætti með þriggja vikna fyrirvara.  Afl atkvæða ræður úrslitum á aðalfundi, nema annað sé sérstaklega tekið fram í lögum þessum.

 

9. gr.

Dagskrá aðalfundar skal vera:

1. Skýrsla stjórnar

2. Stjórn leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins.

3. Umræður um skýrslu og reikninga

4. Lagabreytingar

5. Kosning stjórnar fyrir næsta starfsár

6. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga félagsins

7. Ákvörðun um félagsgjald

8. Önnur mál.

 

10. gr.

Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundum þess. Tillögum til lagabreytinga skal skila 14 dögum fyrir aðalfund til stjórnar og skal stjórn í fundarboði geta þess, ef lagabreytingartillaga hefur komið fram.

Nái lagabreytingartillaga samþykki 55% fundarmanna telst hún samþykkt.  Aðalfundur er lögmætur ef 55% félagsmanna er mættur til fundarins.

 

11. gr.

Stjórn félagsins skipa þrír menn og tveir til vara.

 

12. gr.

Stjórn skiptir með sér verkum.

 

13. gr.

Stjórnin er kjörin til næsta aðalfundar.

 

14. gr.

Stjórn féalgsins ræður málefnum félagsins með þeim takmörkunum, sem lög þessi setja.  Hún tekur ákvarðanir um starfsemi og er ábyrgð fyrir fjárreiðum og skuldbiningum félagsins.

 

15. gr.

Stjórnarfundi skal boða með tryggum hætti með 5 daga fyrirvara.  Stjórnarfundur er ályktunarhæfur ef minnst 2 stjórnarmenn sækja fund.  Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum.  Ef atkvæði falla jöfn ræður atkvæða formanns.

 

16. gr.

Stjórn félagsins er skylt að efna til almenns félagsfundar ef minnst 50% félagsmanna óska þess.  Þess utan getur stjórn boðað til félagsfunda þegar þess er þörf að mati stjórnar.  Almennir fundir skulu auglýstir á tryggilegan hátt með minnst tveggja vikna fyrirvara.

Á félagsfundum ræður meirhluti atkvæða úrslitum mála.  Hver félagsmaður fer með eitt atkvæði á fundum félagsins.